PRÍVAT LÚXUSFERÐIR ÍSLANDS

Ferðatryggingar

Til að njóta ferðalagana sem best getur skipt miklu máli að vera rétt tryggður. Margt getur gerst á ferðalögum á erlendri grundu og gríðarlega hár kostnaður getur fallið á fólk vegna óhappa.

Flestir eru tryggðir í gegnum kreditkortið sitt eða fjölskyldutryggingu og er því ekki alltaf þörf á því að tryggja sig aukalega. Við mælum með því að heyra í því tryggingafélagi sem hefur umsjón með ferðatryggingum þíns kreditkorts ásamt því tryggingafélagi sem þú ert tryggður hjá til þess að allt sé á hreinu áður en haldið er af stað í ferðalagið.

Hafa skal í huga að tryggingar kreditkorta eru mis víðtækar eftir tegund korts en með kortatryggingum nýtur korthafi slysa- og sjúkratrygginar ásamt aðstoðar og þjónustu við að útvega lækni, sjúkrahúsvist, heimflutning og annað ef slys eða veikindi ber að höndum á ferðalagi. Til þess að virkja ferðatryggingar korthafa þarf ekki að greiða tilskilinn hluta ferðakostnaðar, fargjalds eða gistingar. Öllum kreditkortum eiga að fylgja tvö eintök af SOS neyðarkortinu sem inniheldur öll þau símanúmer sem nauðsynlegt er að hafa við höndina ef eitthvað kemur upp á. Mælt er með því að hafa eitt kort í veskinu og annað í ferðatöskunni eða á hótelinu þegar ferðast er.

Ef um alvarleg veikindi eða slys er að ræða er ráðlagt að hafa beint samband við SOS INTERNATIONAL neyðarþjónustu í síma 0045 70 10 50 50. Þar er vakt allan sólarhringinn og getur sérþjálfað starfsfólk veitt aðstoð og þjónustu við að útvega lækni, sjúkrahúsvist og almenna ráðgjöf. Að auki hafa þeir samskipti við sjúkrastofnanir og aðstandendur ásamt því að aðstoða við heimflutning ef þess gerist þörf.

Ef ferðalagið er lengra en skilmálar kortatryggingar eða fjölskyldutrygginar segja til um er nauðsynlegt að kaupa framlengingu á trygginguna eða ferðatryggingu. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að tryggja þarf sérstaklega ýmsar áhættugreinar eins og fallhlífarstökk, köfun og akstursíþróttir.

Ef ferðast er til Evrópu er gott að hafa evrópska sjúkratryggingakortið með í för sem hægt er að sækja um hér. Það tekur u.þ.b. 10 daga að fá kortið og staðfestir það rétt íslenskra ferðamanna og námsmanna til heilbrigðisþjónustu í EES löndum.