Vetrarflótti: Framandi & hlýir áfangastaðir til þess að flýja veturinn

Yfir myrkustu mánuðina getur verið nauðsynlegt að komast í yl og hlýju á framandi stöðum. Við bjóðum upp á fjölmarga áfangastaði þar sem hægt er að blanda saman framandi menningu, sól, hita, strönd og suðrænni sælu. Við mælum sérstaklega með Tælandi, Víetnam, Brasilíu, Kúbu, Jamaica eða Indlandi.

Tæland

Yfir myrkustu mánuðina á Íslandi er hitinn þægilegur á Tælandi, rigning í algjöru lágmarki og því tilvalið að skella sér yfir vetrartímann. Við mælum sérstaklega með tímabilinu desember-mars.

Tæland er stundum nefnt „Land hinna þúsund brosa“ og það er svo sannarlega satt því þú munt brosa allan hringinn eftir dvöl þína þar. Tæland býður upp á ótal möguleika. Í Bangkok iðar allt af lífi og er nóg um að vera þar. Þar geturðu skoðað fjölmörg hof og konungshöllina eða sökkt þér í að prútta við innfædda á götumörkuðum, fengið þér mat hjá grillaranum á horninu eða gætt þér á kokteilum á háhýsabar.

Chiang Mai og Chiang Rai borgirnar eru hornsteinn Norður-Tælands og eru þær fullar af sögu, menningu og sér matargerð og opna einnig leið þína að frjálsum fílum. Suður-Tæland er þekktari fyrir strandlífið. Njóttu þess að fara á einstaka staði og dveldu á fimm stjörnu hóteli á eyjunni Koh Yao Noi eða Phuket. Litríkar strandir, pálmatré og hlýr sjórinn gera Tæland að dásamlegum áfangastað.

Eitt er víst að heimamenn munu taka á móti þér með bros á vör og þú munt brosa af ánægju til baka.

Brasilía

Sumarið í Brasilíu er frá nóvember til febrúar og er því tilvalið að skella sér í sól og samba á þessum tíma ársins.

Rio de Janeiro er án efa ein af líflegustu og fallegustu borgum heims með töfrandi útsýni frá Sugarloaf fjalli. Strendurnar Ipanema og Copacabana eru á lista hjá mörgum yfir strandir sem þeir verða að heimsækja yfir ævina en auk þeirra eru ógrynni af fallegum og ævintýralegum ströndum sem finna má víðsvegar eftir endilangri strandlengju Brasilíu. Í Brasilíu má finna ótalmarga gamaldags og sjarmerandi smábæi með mikla sögu; Frá demants- og gullnámubænum Minas Gerais til gamalla hafna í Bahia fylki. Það er augljóst að litrík fortíð Brasilíu skín í gegn í fjölbreyttu menningu þeirra, öllu fallegu gamaldags byggingunum og með öllu lífsglaða fólkinu. Fyrir utan magnaðar strendurnar og líflega menningu er landið einnig þekkt fyrir mikla náttúrufegurð með Amazon skóginn í fararbroddi. Njóttu náttúrunnar, labbaðu meðfram Iguazu fossunum og virtu fyrir þér litskrúðuga fugla. Dillaðu þér við samba með kokteil í hönd á Copacabana ströndinni í Rio eftir að hafa farið í ferð upp á Sugarloaf fjall og upplifað magnaðasta útsýni sem þú hefur nokkurn tímann séð.

 

Kúba

Besti tíminn til þess að heimsækja Kúbu er frá desember til Maí. Þurrir og sólríkir dagar einkenna þessa mánuði með þægilegu hitastigi í kringum 18°C-30°C

Það er ekkert land í heiminum sem líkist ævintýraeyjunni Kúbu og hefur hún lengi heillað gestið sem þangað koma. Tónlistin, vindlarnir, rommið, hvítar strendurnar eða einfaldlega hið afslappaða og þægilega andrúmsloft sem ríkir á Kúbu.

Havana með sinn gamaldags sjarma með litríkum byggingum og merkilega sögu. Náttúra og tóbaksræktun í Viñales, sykurekrur í litríka bænumTrinidad og undursamlegu hvítu strendur Varadero.

Þrátt fyrir að hafa færst í átt til nútímans síðustu ár er heimsókn til Kúbu ennþá eins og að stíga aftur í tímann í vel varðveitt tímahylki. Hér er að finna ólíka menningarheima með áhrifum frá Afríku og Spáni og bera heimamenn þess glögglega merki.

Jamaica

Í febrúar og mars er hitastigið á Jamaica á bilinu 23°C-30°C og rigning í lágmarki. Þessir mánuðir eru því einstaklega hentugir til þess að komast í sól og sumar, ásamt því að kynnast lífinu í Karabíuhafinu.

Jamaíka er þriðja stærsta eyjan í Karabíska hafinu og er hún talin af mörgum vera sú fegursta á svæðinu með fjölbreyttu og gróðursælu landslagi. Eitt er víst að Jamaíka er stórkostlegur staður og frí þar verða svo sannarlega eftirminnileg. Á Jamaíka er að finna Blue Mountains fjöllin sem ná yfir þvera og endilanga eyjuna en þaðan kemur eitt dýrasta kaffi heims. Umhverfis fjöllin og í regnskógunum eru heimkynni yfir 250 fuglategunda og yfir 3000 tegunda suðrænna planta. Á Jamaíka færðu fyrirtaks romm úr sykurreyr en á meðan á dvöl þinni stendur verður þú líka að prófa þjóðarrétt Jamaíka sem er gerður úr ackee ávextinum og saltfiski. Jamaíka er fyrrum bresk nýlenda og þar geturðu upplifað suðræna paradís með nýlendubyggingum, krikket og síðdegis tei í bland við reggí tónlist sem ómar allt í kring.

Indland

Frá október-mars eru þurrir og sólríkir tímar á Indlandi. Hitastigið er líka einstaklega þægilegt, yfirleitt á milli 15°C-22°C.

Líflegir litir og krydduð lykt er það fyrsta sem mörgum dettur í hug þegar þeir hugsa um Indland og er það svo sannarlega rétt. Indland er vinsæll áfangastaður fyrir bæði bakpokaferðalanga sem og þá sem vilja njóta þess að lifa í lúxus vellystingum. Indland hefur upp á svo margt að bjóða. Snæviþakin Himalaya fjöllin, eyðimerkurnar í Rajasthan, regnskógana í Madhya Pradesh, litríkt hafið og suðrænar strendur við Kerala svo eitthvað sé nefnt. Þú getur dormað á ströndinni, skoðað menningu, musteri og söfn á borð við Agra og Taj Mahal, farið í eyðimerkursafarí eða skellt þér á markað og sest niður hjá næsta götusala og gætt þér á dýrindis mat með framandi kryddum. Einnig geturðu ferðast til Ayurveda svæðiðins og sökkt þér inn hugleiðslu og jóga.

Þetta sögulega land er svo ríkt af menningu, mat og náttúru að það er ógleymanlegt að ferðast þar um og njóta frísins.

Víetnam

Bestu mánuðirnir til þess að heimsækja Víetnam eru febrúar, mars, apríl, október og nóvember. Þá er ennþá hlýtt þar sem meðal hitastig þessa mánuði er í kringum 20°C-25°C. ásamt því að rigning er í lágmarki.

Víetnam er töfrum líkast og svo ótrúlega margt hægt að upplifa í þessu fallega og söguríka landi. Þú getur sökkt þér í mannlífið í höfuðborg norðursins, Hanoi og snætt bragðgóðan mat á götuveitingastöðum. Siglt á stórfenglegum Halong Bay flóanum og sötrað vín á meðan. Farið í norðurhluta landsins og skoðað hrísgrjónaakra eða tekið siglingu á Mekong ánni. Verslað á litríkum mörkuðum í Hoi An, skellt þér á vespu í höfuðborginni Ho Chi Mingh eða hitt fyrrum hermann sem segir þér sögur úr Víetnam stríðinu við Cu Chi göngin. Þú getur líka baðað þig í sjónum og notið strandarlífsins á stórkostlegum ströndum hjá Nha Trang, Can Dao og Hoi An.

Það er svo margt að sjá og gera í þessu fagra landi. Njóttu þess að láta Víetnam heilla þig upp úr skónum.